Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Opnar lúxusheilsulind 
KEF Spa & Fitness
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
föstudaginn 7. apríl 2023 kl. 06:42

Opnar lúxusheilsulind 
KEF Spa & Fitness

– Milljarða uppbygging í og við
 Hótel Keflavík á næstu árum

„Hótel Keflavík opnar lúxusheilsulind KEF Spa & Fitness í september. Framkvæmdir eru komnar á fullt og stækkunarmöguleikar eru nær endalausir,“ segir Steinþór Jónsson, eigandi af Hótel Keflavík.

„Okkar markmið er að skapa alvöru upplifunarsvæði í miðbænum, bæði í, við og í kringum Hótel Keflavík, og fjölga herbergjum verulega á næstu árum. Við vitum af reynslu að ferðamenn vilja vera þar sem lífið er og því þarf að auka gistirými hér á þessu svæði frekar en við flugvöllinn eða fjær miðbænum. Vatnsnesið er því góður kostur og þangað viljum við ná ferðamönnum,“ segir Steinþór. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Stækkunin gæti orðið risaverkefni og kemur í beinu framhaldi af stækkun KEF Restaurant, endurnýjun herbergja og almenningsrýmis og tengist okkar tíu ára framkvæmdaskipulagi fyrir allt Vatnsnesið og nágrenni. Gæfa okkar frá upphafi hefur verið að fylgja ávallt skýrri framtíðarsýn og útvíkka starfsemi okkar skref fyrir skref. Ekkert eitt svæði á Reykjanesi á eins mikla framtíðarmöguleika og Vatnsnesið okkar en við erum auðvitað meðvituð um að það er heildin á Reykjanesi og frábær staðsetning sem gerir þetta spennandi. Við erum einfaldlega best staðsett á svæðinu og því auðveldara og hagkvæmara að vinna út frá því.“

Næsta skref í þessari vegferð Hótels Keflavíkur er að opna KEF Spa & Fitness og er stefnan sett á glæsilega heilsulind og líkamsræktarstöð, skapa sannkallað heilsuhótel. Unnið er með fyrirtækinu Sauna ehf. en það hefur komið að tugum verkefna hér á landi, s.s. Bláa lónið, Íslandshótel, Beryaja hótel, Skógarböðin, Fontana o.fl.

Páll Kristjánsson hjá Sauna ehf. segir margar spennandi nýjungar verða í nýju heilsuræktinni, t.d. heitur pottur þar sem hægt er að taka nokkur sundtök. Stærsti Infra-klefi landsins er í pakkanum en vinsældir Infra-tækninnar hafa stóraukist hér á landi að undanförnu. Að lokum nefnir Páll að fyrsti snjóklefi landsins verði settur upp í KEF Spa & Fitness en slíka klefa er aðeins hægt að finna á nokkrum af bestu hótelum í Evrópu.

„Við byggjum auðvitað á 37 ára sögu en endurnýjun herbergja og almenns rýmis sem nú er að ljúka hefur gengið vonum framar. Framkvæmdir við lagnavinnu fyrir KEF Spa & Fitness eru hafnar og þegar heilsulindin opnar verður skrefið tekið á næsta nágrenni með aðkomu og umhverfi Vatnsnesshússins. Við viljum halda áfram á þeirri braut sem við settum okkur í miðju Covid, að halda áfram og gera betur,“ segir Steinþór.

Í viðræðum við Sporthúsið um VIP-líkamsrækt

„Við erum meðal annars í dag í viðræðum við eigendur Sporthúsins um að skoða möguleika á opna sameiginlega VIP-aðstöðu í líkamsrækt tengt heilsulindinni. KEF Spa & Fitness by Sporthusid væri skemmtileg framtíðarsýn en við viljum samstarf við heimamenn framar öllu öðru því hér er mannauðurinn og hjá heimamönnum slær hjartað fyrir okkar samfélag. Ljóst er að við ætlum okkur að bjóða aðeins upp á það besta, þannig að Technogym líkamsræktartæki koma helst til greina en nánast öll fínni hótel heims bjóða upp á slík tæki í sinni líkamsræktaraðstöðu.“

Milljarða uppbygging á næstu árum

Steinþór segir upphafið að nýrri framtíðarsýn vera þegar fyrsta fimm stjörnu hótel landsins, Diamond Suites, opnaði í Keflavík árið 2016. Árið 2020, í miðju Covid, var tekin ákvörðun um að snúa vörn í sókn með að opna KEF Restaurant og öll upplifunarsvæði í kringum það. „Það sem stendur upp úr hjá okkur er jákvæðni bæjarbúa sem hafa sótt staðinn vel og eru nýjar hugmyndir um heilsulind teknar með þarfir og væntingar þeirra í huga. Undirbúningsvinna er nú hafin við okkar framtíðaráform að finna leiðir til að rúmlega tvöfalda gistirými úr 70 herbergjum í allt að 170 herbergi og stækka fimm stjörnu Diamond Suites enn frekar í þeirri vegferð.“

Að sögn Steinþórs hafa árin eftir Covid verið bæði mjög skemmtileg og spennandi enda hótelið komið á þann stað sem þeim Hildi, konu hans, hafi aldrei órað fyrir í upphafi. Áherslurnar núna eru upplifun og gæði og nýjar hugmyndir. Þau sjá fyrir sér að Básvegurinn verði ferðamannaperla og við ströndina komi alvöru náttúruböð sem hafa fengið vinnuheitið „KEF Lagoon“ í hugmyndavinnunni. Böðin yrðu þá umkringd náttúrulegum klöppum og steinum sem eru þegar til staðar á svæðinu og útsýnið yfir upplýst Bergið og Faxaflóann eitthvað sem fáir geta keppt við.

„Þetta gæti verið lokapunkturinn í þessum áfanga, eða þangað til næsta hugmynd vaknar, því við erum enn ung og spennt fyrir jákvæðri uppbyggingu á svæðinu,“ segir Steinþór.